Hummus með karamellu-lauk

Ég hreinlega elska hummus! Það er einfalt að gera hummus og mjög gott að smyrja honum á nánast hvað sem er, til dæmis á brauð, hrökkbrauð, í vefjuna, nota hann sem ídýfu eða á pizzuna. Sérstaklega er gaman að leika sér með að prufa gera nýjar útgáfur og bragðbæta. Þessi uppskrift er fullkomin til að gera klassískan hummus en það sem gerir hann sérstaklega góðann er karamellu-laukurinn sem hafður er sem meðlæti. Það er eitthvað við þessa samsetningu sem leikur við bragðlaukana. Ég mæli með að borða hann á góðu súrdeigsbrauði eða í vefju með grænmeti, tofu eða kjúklingi. Ef þið viljið prufa fleiri uppskriftir af hummus verð ég að mæla með heimsins besta hummus sem einnig er á síðunni minni, sá klikkar aldrei.

Hummus með karamellu-lauk

400 gr dós kjúklingabaunir

1 msk tahini

1 hvítlauksgeiri, maukaður/pressaður

2 msk ferskur sítrónusafi

salt og pipar eftir smekk

1/2 bolli góð ólífuolía

Karamellu-laukur

2 msk olía

1 laukur , skorinn í sneiðar

2 msk púðursykur

1 -1 1/2 msk balsamik edik

Byrjið á að gera laukinn. Hitið olíu í pönnu á miðlungs hita, þú vilt mýkja laukinn ekki steikja hann. Eldið laukinn þar til hann er mjúkur. Bætið við sykrinum og edikinu og látið malla í 2 – 3 mínútur eða þar til laukurinn er fallega brúnn og búinn að karamelluserast. Setjið til hliðar og látið kólna.

Skolið kjúklingabaunirnar vel og setjið í matvinnsluvél ásamt tahini, hvítlauk, sítrónusafa, salt og pipar og maukið vel saman meðn þið látið olíuna renna rólega saman við blönduna. Ef ykkur finnst hún of þykk er gott að setja aðeins meira af olíu og/eða 1 -2 msk af klakavatni. Leyfið hummusinum að blandast vel saman, setjið í skál og skreytið með smá lauk. Gott er að setja örlítið af sumac kryddi til skrauts.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *