Berja- og rabarbarapæ

Þessi uppskrift er og verður alltaf í uppáhaldi, því hægt er að breyta upp­skrift­inni eft­ir hent­ug­leika og því sem til er hverju sinni og leika sér með hvaða ber eru notuð í bök­una. Þetta er þó besta samsetning sem ég hef gert og hún er ákaf­lega sum­ar­leg og bragðmik­il. Hún er matarmikil og dugar því fyrir gott matarboð, saumaklúbb eða annan skemmtilegan mannfögnuð. Gott er að bera hana fram með ís, þeyttum rjóma, sýrðum rjóma eða kókosrjóma. Það sem er sérstaklega þægilegt er að hægt að gera hana áður en boðið hefst sem getur sparað manni mikinn tíma.

Mynd frá TM

Topp­ur:
2/​3 bolli haframjöl
2/​3 bolli heil­hveiti
1/​3 bolli púður­syk­ur
1/​2 tsk. kanill
1/​2 tsk. salt
90 g smjör, kalt skorið í litla bita

Fyll­ing
2 epli, pink lady
2 stöngl­ar rabarbari 
1/​2 bolli blá­ber
1/​2 bolli bróm­ber
Safi úr 1/​2 app­el­sínu
1/​3 bolli syk­ur


Gerið deigið fyrst.
Blandið öll­um þur­refn­um sam­an og klípið smjörið sam­an við blönd­una, þar til þur­refn­in hafa bland­ast smjör­inu al­veg. Geymið í kæli meðan fyll­ing er gerð.
 
Skrælið og skerið eplið í bita og setjið í skál, saxið rabarbar­ann í bita og bætið sam­an við. Blandið rest af berj­um, sykri og safa úr app­el­sínu og hrærið. Hellið blönd­unni í eld­fast mót sem búið er að smyrja með smjöri.
Myljið deigið yfir og dreifið jafnt, bakið í for­hituðum ofni við 180 gráður í 40 – 50 mín­út­ur eða þar til bak­an er fal­lega gyllt.
Þessi mun færa ykkur sól, gleði og hamingju 🙂 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *