Eggaldinbitar með parmesan­hjúp

Þetta er dásamlegur forréttur sem mun engan svíkja. Þessir bitar eru allt sem maður vill, stökkir, mjúkir, bragðgóðir og djúsí. Ég mæli með að gera smá auka til að eiga í nesti með góðu salati í vinnuna daginn eftir. Það sem gerir þessa bita enn betri fyrir mig er að elsti drengurinn minn sem vill helst ekkert grænmeti (ólíkt bræðrum sínum) borðar þessa bita með bestu lyst.

Eggaldinbitar með parmesanhjúp
Dásamlegir bitar sem kæta alla.
Skrifa umsögn
Prenta
Eggaldinbitar
 1. 2 stór eggaldin
 2. 2 bollar panko brauðmylsna
 3. 1 bolli rifinn parmesanostur
 4. 3 stór egg
 5. 1 bolli hveiti
 6. Olía sem gott er að steikja uppúr
 7. Salt og pipar eftir smekk
 8. Saxaður basil eða steinselja til að skreyta
Tómat- og basilsósa
 1. 2 dósir saxaðir tómatar
 2. 1-2 pressaðir hvítlauksgeirar
 3. 1 msk tómatpúrra
 4. 10 söxuð basilblöð
 5. 1/2 tsk rauð chilikorn
 6. Salt og pipar eftir smekk
Bitarnir
 1. Afhýðið eggaldin og skerið í bita sem eru um 1-2 cm að þykkt.
 2. Setjið eggaldin til hliðar í sigti með skál undir og setjið tvær teskeiðar af salti yfir og veltið þeim upp úr því, þetta dregur safann úr bitunum og þeir verða ljúffengir. Látið standa í 30 mínútur.
 3. Setjið brauðmylsnu, parmesan, salt og pipar í stóra skál, hveiti í aðra skál og hrærið eggin saman í þriðju skálina.
 4. Hellið olíu í pott eða djúpa pönnu. Til að athuga stöðuna á olíunni setjið þið skaft af trésleif í hana. Ef hún er tilbúin myndast litlar loftbólur í kringum skaftið.
 5. Setjið eggaldinbitana fyrst í hveiti, svo egg og að lokum brauðmylsnuna og djúpsteikið þar til fallega gylltir. Flytjið bitana á pappír af elhúsrúllu meðan þið klárið að djúpsteikja. Ef bitarnir eru að verða dökkbrúnir á að lækka hitann undir olíunni.
 6. Rífið parmesan yfir bitana og skreytið með basil.
Sósan
 1. Allt sett saman í pott og látið malla við vægan hita; sósan verður betri ef hún fær að malla í lengri tíma.
Athugasemdir
 1. Ég lærði eitt ráð til að taka málmbragðið sem kemur oft af tómötum úr dós í matargerð: Setjið klípu af sykri í sósuna og málmbragðið hverfur.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/
_dsc6693 _dsc6697

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *