Konfekt með kókos- og möndlufyllingu

_dsc5522

Myndir: Íris Ann

Hver elskar ekki gott, einfalt og bragðgott konfekt í örlítið hollari kantinum? Þessi uppskrift er ofur einföld og vinkonurnar tóku hreinlega bakföll af gleðigargi þegar boðið var upp á þessa mola með kaffinu. Það sem gerir þá svo einstaklega góða er fyllingin sem kemur beint úr krukku svo ekki þurfti að vesenast neitt til að búa hana til. Já, þú varst að lesa rétt!!! Ég er orðin svo hrifin af þessari nýju viðbót í skápinn minn og farin að smyrja þessu kókos- og möndlugúmmelaði á nánast allt; á amerískar pönnukökur, á marensbotna, í múffur, á ristað brauð og út í hafragrautinn og grísku jógúrtina til að fá smá sætu og dýrðlegt bragð. Kremið inniheldur slatta af sykri og kaloríum svo ég er að reyna að tempra mig en það gerist varla fyrr en blessuð krukkan er tóm.

Konfekt með kókos- og möndlufyllingu
Einfalt og bragðgott konfekt sem allir geta gert.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 300 gr Siríus konsum súkkulaði eða annað gott súkkulaði
  2. 1/2 bolli ristaðar kókosflögur
  3. Kókos- og möndlukrem frá Rapunzel (Kokos-mandel creme)
Leiðbeiningar
  1. Ristið kókosinn á pönnu þar til hann er fallega gylltur og setjið til hliðar.
  2. Bræðið helming af súkkulaðinu og setjið um eina teskeið í lítil konfektform og kælið þar til súkkulaðið hefur storknað.
  3. Setjið 1/2 tsk af kókos-möndlukreminu í hvert form og kælið aftur í smá stund.
  4. Á meðan molarnir kólna bræðið þið restina af súkkulaðinu, hellið svo yfir molana þar til kremið sést ekki eða um 1 teskeið yfir hvern mola og skreytið með ristuðum kókos og setjið aftur í kæli.
Athugasemdir
  1. Molarnir geymast vel í kæli í lofttæmdu boxi. Ég fékk um 24 mola úr þessari uppskrift. Það er enginn eftir.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/
_dsc5530 Þessi færsla er styrkt af Innnes hf. sem flytur in Rapunzel.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *