Kókoskúlur Dísu Dungal

thordisasadungal-(234-x-312)

Dísa Dungal er 24 ára íþróttafræðingur og meistaranemi í íþrótta- og heilsufræði hjá Háskóla Íslands. Dísa er þjálfari hjá Hreyfingu og elskar að borða góðan mat. Hún viðurkennir þó að einstaka sinnum fái hún sér Mars-ís og hún gæti ekki lifað án ávaxta. Hér deilir hún með okkur góðum ráðum og uppskrift af uppáhalds nammiu sínu.

„Ég ólst upp á heimili þar sem ekki var mikið um óhollustu. Móðir mín er mjög góður kokkur og því var í flestum tilfellum heimagerður kvöldmatur. Ég hef prófað ýmislegt þegar kemur að mataræði, allt frá Carbbackloading yfir í að vera grænmetisæta og allt þar á milli. Allt hefur þetta sína kosti og galla svo það er erfitt fyrir mig að segja hvað mér finnst best. Svo lengi sem mataræðið er heilsusamlegt, næringarríkt og lætur líkamanum mínum líða vel er ég good to go!“

Hvað gætir þú aldrei hætt að borða?
„Ég get ekki ímyndað mér lífið án ávaxta. Áður fyrr fannst mér tilhugsunin um að HÆTTA að borða eitthvað ákveðið út í hött og eitthvað sem ég gæti aldrei gert. En eftir að mér tókst að taka út mjólkurvörur og kjöt án þess að finna fyrir löngun í það fór ég að sjá þetta í aðeins öðru ljósi. En ávextir eru það besta sem er til.“

Hvaða mat myndir þú aldrei borða og hvers vegna?
Ég er yfirleitt mjög opin þegar kemur að því að prófa eitthvað nýtt en ég held að ég eigi aldrei eftir að fá mér McDonald‘s. Í svona risastórum iðnaði þykir mér skuggalegt hvað maturinn er mikið unninn. Maður veit varla lengur hvaða hráefni eru í fæðunni.“

Hvað gerir þú hjá Hreyfingu og hvernig leggst haustið í þig?
Ég hef verið að kenna hóptíma og finnst það hrikalega skemmtilegt en númer eitt hjá mér er einkaþjálfunin. Nú þegar líður á haustið fer háskólinn að hefjast og ég veit að það á örugglega eftir að vera mikil vinna fólgin í því að skrifa mastersritgerð og vera í fullri vinnu hjá Hreyfingu. En ég er mjög heppin að vera í starfi sem ég hef virkilega gaman af. Það á eftir að gera veturinn mikið auðveldari. Einnig er ekki í boði fyrir mig að hætta að hreyfa mig reglulega eins og á til að gerast þegar maður gleymir sér og hættir að hugsa um heilsuna ef mikið utanaðkomandi álag er á manni. Haustið leggst því ágætlega í mig.“

Hvað leggur þú áherslu á í mataræðinu hjá þínum kúnnum?
Mataræði hvers og eins fer eftir markmiðum þeirra. Í heildina reyni ég að hafa fæðu sem mest mettandi fyrir sem fæstar hitaeiningar. Þannig finna einstaklingarnir síður fyrir þörfinni til að vera sífellt nartandi. Einnig reyni ég að gera þeim grein fyrir því hversu mikil áhrif það hefur að vera sífellt að borða úti og kaupa sér tilbúinn mat. Í flestum tilfellum eru skammtarnir á matsölustöðum alltof stórir fyrir einn en maður endar þó alltaf á því að klára. Matsölustaðir hafa það markmið að hafa matinn sem bragðbestan og gera það sem þarf til að ná því markmiði, hvort sem það er meira salt, meiri sykur eða smjör. Óþarfa hráefni sem maður myndi sjálfur sleppa, væri maður að elda heima.“

Hvaða uppskrift ætlar þú að deila með okkur?
Mig langar að deila með ykkur heilsubættu kókoskúlunum mínum sem eru þær bestu sem ég hef smakkað! Gott að grípa í ef mann langar í eitthvað sætt án þess að fá sér nammi!“

Kókoskúlur Dísu Dungal
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
 1. 200 gr smjör (ég notaði smjör úr juraolíum)
 2. 1 dl sukrin með steviu
 3. 5 dl haframjöl
 4. 4 msk kakó
 5. 2 tsk vanilludropar
 6. ½ msk hunang
 7. 2 msk kalt kaffi
 8. Döðlur
Leiðbeiningar
 1. Setjið allt saman í skál og blandað vel saman.
 2. Bætið söxuðum döðlum út í til að þykkja degið og bragðbætið eftir því hversu sætar þið viljið hafa kúlurnar! Ég set dölurnar bara út í á meðan ég hnoða degið, þar til degið er orðið nógu þykkt til að hægt sé að búa til litlar kúlur.
 3. Veltið kúlunum upp úr kókos og látið þær síðan standa í nokkrar mínútur í kæli.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *