Sykruð sumarblóm

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona, ritstjóri Kvennablaðsins og matgæðingur situr sjaldnast auðum höndum. Nýjasta nýtt í eldhúsinu hjá þessari fjölhæfu konu eru sykuruð íslensk sumarblóm. Við hjá EatRVK urðum að fá nánari lýsingu á þessari fallegu snilld enda þjóðráð að nýta sumarblóm í tertuskreytingar. Þessi tækni gerir manni kleift að geyma blómin og skreyta með langt fram á vetur.

Mynd: Íris Ann

„Ég var að gramsa á vefnum og rakst á myndband með Mörtu Stewart og einhverri blómadrottningu þar sem þær voru að kristallisera blóm. Ég hef reyndar alltaf haldið – þó það sé nánast örugglega þvæla – að Marta geti ekkert eldað en ég ákvað að prófa. Blómin eru tekin þurr í sínu ferskasta formi fullútsprungin og máluð með eggjahvítu. Ég notaði gamlan vatnslitapensil. Blöðin eru vandlega máluð beggja vegna og svo drussar maður strásykri yfir, þær voru reyndar með miklu fínni sykur en ég hafði við höndina og það er örugglega dálítið smartara. Þetta varð soldið groddalegt með borðsykrinum.“

14045936_10153522953385834_8582623355618456000_n

„Blómin eru látin harðna á þurrum stað á nokkrum tímum og maður þarf að gæta þess að færa þau úr stað svo þau festist ekki við flötin sem þau liggja á. Blómin verða glerhörð og eiga víst að geymast á þurrum stað í allt að sex mánuði. Nota skal eingöngu æt blóm eins og fjólur, rósir, skjaldfléttu og morgunfrú en ég hugsa að þetta væri gaman að gera við margar íslenskar jurtir EF maður hefði bókstaflega ekkert annað að gera í lífinu,“ segir Steinunn á kafi í strásykri og smartheitum.

14037404_10153523103425834_364170896_o

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *