Kóríanderpestó Önnu Mörtu

mynd - TobbaAnna Marta Ásgeirsdóttir er þjálfari í Hreyfingu og mikill listakokkur. Hún deilir hér með okkur nokkrum hollráðum sem gott er að hafa í huga þegar sumarsukkið leggst yfir okkur. Anna Marta er um þessar mundir að byrja með 4ra vikna námskeið í Hreyfingu sem hefst 4. júlí og heitir Súper Sumarform, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytta hreyfingu í bland við bætt mataræði.

„Þetta eru fjölbreyttir og árangursríkir tímar. Boðið verður upp á hjólatíma sem kallast Activio, STS sem eru lyftingatímar, Nike training Club tímar sem byggja á kerfi frá Nike og eru góðir fyrir þol og vöðvaúthald, eftirbruna sem býður upp á fjölbreyttar og krefjandi æfingar og styður við góðan eftirbruna allan daginn, stöðvaþjálfun og margt fleira,“ segir orkuboltinn Anna og lofar miklu fjöri en hún leggur einnig mikið upp úr réttu mataræði. En hvernig getur maður forðast að detta í „ruglið“ yfir sumartímann þegar margir leyfa sér mun meira en í vetrarrútínunni?

„Mitt mottó er „hamingjuríkur lífstíll“.  Mér finnst að við eigum að hugsa vel um okkur alla daga ársins. Hamingjusamur lífstíll er fólgin í litríku mataræði sem er einfaldlega mikið af grænmeti og ávöxtum.  Borða vel af salati með grillaða matnum og vera duglegur að búa til sínar eigin sósur. Að vera meðvitaður um líkamlega og andlegan líðan, veljum að borða það sem líkamanum líður vel að fá.  Tengja þannig góða líðan við það sem við erum að borða.  Eins og ég segi alltaf: Að vera hamingjusamur í eigin líkama alla daga ársins er ævilangt verkefni. Tökum verkefninu fagnandi og verum þakklát fyrir að hafa val.“

Hvaða innihaldsefni eru í mestu uppáhaldi hjá þér?
„Kasjúhnetur,  ég elska þær og þær eru algjört töfra hráefni. Lárpera, möndlur og allt grænmeti eru í miklu uppáhaldi sem og allar 100% hreinar vörur.“

Hvað eyðir þú að meðaltali miklum tíma í eldhúsinu á dag?
„Já, stórt er spurt.  Allt frá 30 mínútum til 2ja tíma.  Ef ég er að hugsa um okkur hér á heimilinu þá er ég dugleg að vinna mér í haginn og nýti tímann vel.  Til dæmis grilla ég alltaf tvo kjúklinga í stað eins, á þá pottþétt til kjúkling í annað hvort salat, súpu eða aðra rétti seinna í vikunni. Að hugsa fram í tímann og vera skipulagður er eitt af lykilatriðunum þegar maður vill eiga hamingjuríkan lífstíl.“

Hvað borðar þú í morgunmat ?
„Nú er ég með æði fyrir graut sem ég geri úr rauðrófum, möndlumjólk, lárperu og gulrótum. Mauka þetta saman gróft, ég vil finna áferðina á matnum þegar ég borða hann. Er ekki mikið fyrir að drekka matinn minn, heldur elska að borða og njóta. Set svo til dæmis grænt epli, vatnsmelónu, graskersfræ og kókosmjöl yfir grautinn. Algjörlega himnesk blanda að mínu mati.“

Mikilvægasta eldhústækið?
Nr. 1 er hnífasettið mitt og nr. 2 er Vitamixerinn minn. Ég geri flestallar sósur í honum og nota hann einnig mikið fyrir krem í hráfæðiskökur.“

Að lokum deilir Anna Marta með okkur himnesku pestói og hvetur fólk til að hreyfa sig með brosi á vör í sumar og borða litríka fæðu! Hér má svo fylgjast með eldhúsævintýrum Önnu.

Myndir: Anna Marta 

Kóríander pestó

Kóríanderpestó með kókosmjöli og sólkjarnafræjum
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 50 gr kóríander
  2. 50 gr klettakál
  3. 2 dl góð olía
  4. 1-2 hvítlauksrif
  5. 2 msk kókosmjöl
  6. 2 msk sólkjarnafræ
  7. Sjávarsalt og piripiri krydd eftir smekk
Leiðbeiningar
  1. Setjið kóríander, klettakál, olíu og hvítlauk saman í matvinnsluvél eða blandara og blandið vel saman.
  2. Smakkið til með salti og piripiri kryddi.
  3. Þegar pestóið er tilbúið setjið þá saman við kókosmjölið og sólkjarnarfræin.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *