Rabarbara-, jarðaberja- og basilsíróp

Ég var svo heppin að fá gefins tvo fulla poka af rabarbara og strax langaði mig að gera síróp. Það er svo skemmtilegt og einfalt að gera síróp, hægt er að leika sér með hráefnin og svo er hægt að njóta þess á svo marga vegu. Að þessu sinni notaði ég það sem ég átti í ísskápnum, fallega rabarbarann, jarðber og basil. Þetta síróp er einstaklega gott á pönnukökur, skyr og á hafragrautinn en best finnst okkur fjölskyldunni að setja það í sódavatn eða kokteila fyrir fullorðna fólkið. 🙂

Rabarbara-, jarðaberja- og basilsíróp
Einfalt og bragðgott síróp sem hægt er að nota á marga vegu.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
  1. 500 gr rabarbari, smátt skorinn
  2. 500 gr jarðaber, skorin í bita
  3. 500 gr sykur
  4. 500 ml vatn
  5. 5-15 basil laufblöð, eftir smekk
Leiðbeiningar
  1. Smátt skorinn rabarbari, jarðaber, sykur og vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Lækkið svo undir og látið malla í um 10 mínútur.
  2. Setjið basil laufin í sírópið og látið blandast vel saman í pottinum í um 5-10 mínútur, því lengur því meira bragð. Ég nota um 10 stór lauf af basil í mitt síróp.
  3. Setjið stórt sigti yfir skál, setjið grisju í sigtið og setjið blönduna úr pottinum í sigtið. Látið vökvann síga í skálina í nokkra stund, kreistið eins mikinn vökva úr grisjunni og þið getið.
  4. Setjið sírópið í sótthreinsaðar flöskur og geymið í kæli.
Athugasemdir
  1. Þeir sem eru ekki eins hrifnir af basil og ég geta sett minna af því eða sleppt því.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *