Sumarleg engifer- og chilisulta

Loksins er komið sumar og þá er ekkert betra en að gera ostabakka með góðum ostum og sultu þegar gestir koma. Þessi sulta er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni, hún er mikið notuð og á marga vegu. Til dæmis er gott að nota hana í salatdressingu, á fiskinn inn í ofn og sem meðlæti. Úr þessari uppskrift fær maður 6 krukkur svo upplagt er að gefa gestgjöfum þær þegar maður fer í matarboð. Fyrir þá sem eru ekki hrifnir af engifer má alveg sleppa honum, en mér finnst hann dásamlegur í þessari sultu.

Sumarleg engifer- og chilisulta
Dásamleg sumarsulta sem er góð með öllu.
Skrifa umsögn
Prenta
Innihaldsefni
 1. 14 stk rauðir chili, fræhreinsaðir og saxaðir
 2. 3 stk rauðar papríkur, fræhreinsaðar og saxaðar í bita
 3. 3-5 msk saxaður engifer, ég set 5 skeiðar og vel kúfaðar
 4. 5 1/2 bolli sykur
 5. 1 1/2 bolli borðedik
 6. 4-5 tsk sultuhleypir
Leiðbeiningar
 1. Chili, engifer og papríka sett í matvinnsluvél og maukað saman, þó ekki of lengi.
 2. Maukið sett í pott ásamt sykri og ediki.
 3. Hrærið vel í og látið suðuna koma upp.
 4. Látið malla við lægri hita í um 10-15 mínútur.
 5. Ein teskeið af sultuhleypi sett útí í einu og leyft að sjóða saman í um mínútu þar til næsta teskeið er sett útí. Mér finnst best að sigta sultuhleypinn þegar hann er settur í sultuna.
 6. Gott er að taka appelsínugulu froðuna sem myndast á sultunni af með skeið og henda henni, sultan verður mun betri og fallegri.
 7. Sultunni hellt í heitar krukkur og látið kólna.
Athugasemdir
 1. Þessi sulta er dásamleg með ostum, í dressingu á gott kjúklingasalat og til að smyrja yfir fisk og setja í ofn, skreyta svo með ristuðum pistasíum. Ef þið notið sultusykur má sleppa sultuhleypinum.
EatRVK http://eatrvk.kvennabladid.is/

2 Comments on “Sumarleg engifer- og chilisulta

 1. Hvað verður til mikið af sultu úr þessari uppskrift? Er aðferðin eins ef hún er t.d. helminguð?

  • Sæl:)

   Þú færð um 5-6 sultukrukkur úr uppskriftinni og já það er eins aðferð þegar hún er helminguð.

Skildu eftir svar við Linda Björk Ingimarsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *