Hvert skal fara á Food and Fun?

Jæja elskurnar, nú er komið að því! Food and fun helgin er að detta inn og enn er eitthvað um laus borð. Fjölmargir staðir taka þátt og ættu því flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Fyrir þá sem ekki þekkja hátíðina þá er um að ræða matarhátíð þar sem allir staðirnir sem taka þátt flytja inn erlendan gestakokk og sammælast um eitt verð fyrir fimm rétta seðil: 8500 kr. á öllum stöðunum.

Ég er með nokkrar léttar reglur við val á stað og langar að deila þeim með ykkur en þessi trix hafa gefist mér ansi vel. Allavega hef ég sjaldan orðið fyrir vonbrigðum.

  1. Skoðið heimasíðu Food and fun, lesið um kokkana og verið búin að mynda ykkur skoðun hverjir höfða mest til ykkar. Ef þið eigið einhverja uppáhaldsstaði í Reykjavík þarf ekki að vera að þeir séu með bestu kokkana, svo veljið kokkinn, ekki staðinn!
  2. Rýnið vel í matseðlana á síðunni og veljið ykkur þann sem ykkur líst best á. Gott er að velja nokkra seðla ef ske kynni að það væri uppbókað.
  3. Ég reyni að velja mér staði sem eru með spennandi hráefni, eitthvað nýtt á boðstólum og helst ekki lambakjöt eða skyr. Ég er Íslendingur og ætti að skammast mín, ég veit! En ég fæ alveg lambakjöt og skyr nægilega oft svo ég er til í eitthvað meira spennandi en svo.
  4. Þeir kokkar sem hafa heillað mig mest á hátíðinni síðastliðin ár hafa komið frá Bandaríkjum og Evrópu en þeir sem ég hef orðið fyrir hvað mestum vonbrigðum með eru Norðulandakokkarnir. Ég er því farin að tortryggja þá þó ég verði að viðurkenna að í ár eru þeir að koma sterkir inn.

Eftir að hafa rýnt vel í þessi atriði lýst mér best á neðantalda staði. Ég verð þó að viðurkenna að ég vildi gjarnan sjá fleiri konur elda á Food and Fun.

Grand Resturant –  Douglas Rodriguez sem kom líka í fyrra og ég var sko ekki svikin þá. Maturinn var hreinn unaður, líklega besta upplifunin hingað til. Hann er með dásamlegan matseðil þetta árið og mikið var ég glöð að sjá að á matseðlinum er ceviche, sem hann er hvað frægastur fyrir.

Sushi samba – Julian Medina. Mikið hlakka ég mikið til að prufa matinn hans! Julian er yfirkokkur á Sushi Samba í New York og ku vera mikill meistari í suður-amerískri matargerð.

JulianMedina.jpg

Julian Medina kokkar á Sushi Samba

Á 101 Reykjavík eða Kitchen and wine 101 verður kokkur sem heitir Per ThØstesen en hann kemur frá Danmörku. Hann er mikið fyrir bistromatargerð. Hann er Norðurlandabúi svo ég er örlítið skeptísk en matseðilinn sem hann hefur sett saman er mjög spennandi svo ég er alveg til í að gefa vini okkar séns – ég meina hver segir nei við ostrum eða önd? Ekki ég!!!!!

Á Bryggjunni er annar kokkur frá Norðurlöndunum sem heitir Daniel Frick. Ég átti svolítið erfitt með að mæla með þessu þar sem ég hef farið nokkrum sinnum á Bryggjuna og alltaf hefur þjónustan verið ferlega slök en hey, maður á alltaf að gefa stöðum séns aftur – sérstaklega þegar þeir eru nýjir – og bjórinn er sérstaklega góður hjá þeim. Matseðillinn er allavega mjög spennandi; fiskur, ostrur og kavíar. Bryggjan er því með góðan seðil fyrir þá sem ekki vilja kjöt.

Og síðast en alls ekki síst er það Apótekið þar sem snilldarkokkurinn Sean Rembold fær að leika lausum hala í eldhúsinu. Hann er mjög fær og hefur fengið hin virtu verðlaun James Beard Award sem besti kokkur New York borgar, sem er mikill gæðastimpill. Þarna er reyndar lambakjöt í aðalrétt en ég er alveg til í að gefa þessum matseðli séns þar sem allt annað er dásamlegt, staðurinn fallegur, þjónustan hefur aldrei klikkað og kokkurinn snillingur.

Jæja, nú er komið að þér að velja þér stað(i). Góða skemmtun og vonandi upplifun sem þú aldrei gleymir. Og endilega sendu okkur línu um þann stað sem þú valdir og hvernig var. Fólk hefur auðvitað mismunandi smekk og það er alltaf skemmtilegt að prufa eitthvað sem þú myndir ef til vill ekki velja venjulega. Núna ætla ég til dæmis að prufa aftur matseðil frá Norðurlöndunum.

Verði ykkur að góðu og gleðilega hátíð!

Linda og EatRVK

14 Comments on “Hvert skal fara á Food and Fun?

  1. Lifandi Markaður – Guðmundur Geir og Ísak

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *