Grenjandi gott andasalat

Ég fer allavega einu sinni í viku út að borða. Það er einn kostur þess að búa í miðbænum. Fjöldi dásamlegra morgunverðar-, hádegis- og kvöldverðarstaða klípa mig í nefið daglega á ferð minni um miðborgina. Ég fæ reglulega æði fyrir einhverjum rétti – eins og þið munum fljótt kynnast. Þessa stundina er það andasalatið á Snaps. Það er því miður ekki alltaf til en sé það á matseðlinum hangi ég á húninum í hádeginu.

Snaps á sérstakan stað í hjarta mér. Amma min, Þorbjörg Bjarnadóttir vann lengi í Brauðbæ sem var staðsett í sama húsnæði og hýsir nú Snaps, það er að segja Þórsgötu 1. Snaps er einn vinsælasti veitingastaður bæjarins og einkennist af hverfiskráarbrag. Ég verð þó að viðurkenna að maturinn þar er ekki sniðinn að mínum smekk þó ég elski starfsfólkið og stemminguna. Ég hef einu sinni kvartað og viðbrögðin sem ég fékk voru svo yfirgegngilega góð að ég man ekki eftir að hafa lent í öðru eins hérlendis. Yfirleitt fer fólk bara í flækju eða segir lítið sem ekkert og gengur í burtu án þess að leysa úr málinu á nokkurn hátt. Ég hef oftar en einu sinni skilað fullum disk á veitingarhúsi í Reykjavík og þjónninn tekið þegjandi við disknum og kvörtun og rukkar svo fullt verð en ég fer út geðvond og svöng.

711

Mynd: snaps.is

Matur getur klikkað og það má bæta, en brosið og viðmótið verður að vera í lagi. Á Snaps er viðmótið gott sem skiptir sköpum að mínu mati. Matseðilinn er skandinavískur að upplagi. Fiskur, smurbrauð, steik og bernaise og klúbbsamloka eru meðal vinsælustu rétta staðarins. Andasalatið dásamlega er þó minn uppáhaldsréttur í Reykjavík, auk þess sem ég hef mikið dálæti á fisk staðarins sem er mismunandi milli daga.

Stemmingin á staðnum, sérstaklega um helgar, er eins og stórt og gott matarboð. Yfirleitt þekkir maður þó nokkra. Gestir spjalla því gjarnan milli borða, tylla sér á barinn og ræða málin eða ílengjast í drykk. Vínglasið breytist í gin og tonic og hlegið er fram eftir kvöldi og jafnvel færist fólk niður í kjallarann sem hýsir litla setustofu og bar.

12366943_10153353235337794_1291661158_n

Húsvínið er svo önnur og góð saga. Bæði hvítvínið og rauðvínið er franskt og mjög gott fyrir sanngjarnan pening. Ég er farin að leita þetta vín uppi í Ríkinu en þar er það á ansi góðum prís, 1678 krónur en viðmiðunarverðið fyrir þetta vín í Evrópu er 2776 kr samkvæmt vín-appinu sem ég nota, Vivino. Ég mæli með að þið sækjið ykkur þetta app. Þú tekur einfaldlega mynd af flösku og appið segir þér hvað vínið heitir, hvar það fæst og hvað það kostar.

En gleymum ekki aðalatriðinu! Andasalatið góða er haustlegt, matarmikið og á viðráðanlegu verði, 2900 kr. Bökuð pera, fíkjur, granatepli, sæt kartafla, önd og soðin egg. Matarmikið, hollt og heilnæmt. Ef gera á vel við sig er fullkomið að fá sér rauðvínsglas með.

Framsetningin á salatinu er tilgerðarlaus og girnileg. Perunni er raðað upp í turn efst á salatinu og á toppnum trjónir fersk bökuð fíkja. Myndin er því miður ekki að gera þessu góð skil.   

Verð: 
Andarsalat 2900 kr.
Vínglas 1390 kr.

Athugið: Ekki er greitt fyrir þessa umfjöllun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *